Velkomin

CJA Tjaldstæði er við bæinn okkar Hjalla í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu, eingöngu 2 km frá byggðarkjarnanum Laugum.

MapTil að komast til okkar þarf að beygja af þjóðvegi 1 heim að Laugum (vegur 846). Eftir að komið er yfir brúna er beygt til hægri, ekið framhjá sundlauginni, upp brekku, aftur beygt til hægri inn á Hjallaveg og eknir 2 km á frekar mjóum en oftast þokkalegum malarvegi.

Ólíkt flestum öðrum tjaldsvæðum á Íslandi eru gestum leigð afmörkuð svæði sem eru allt frá 80 fermetrum að stærð. Stæðin, sem við köllum einfaldlega bása, eru afmörkuð með gróðri hvert frá öðru.

Þegar árið 2004 hófumst við handa við undirbúning svæðisins. Plægðum gömul tún upp og plöntuðum í þau skjólbelti með það að markmiði að búa til tjaldsvæði þar sem hver gestur fær til afnota stæði sem aðrir gestir geta ekki gengið á. Hvert stæði hefur því skjólbelti og trjágróður á þrjá vegu. Tvær fjölskyldur geta hæglega deilt með sér stæði og gert er ráð fyrir því að hver og einn geymi bílinn hjá sér „á básnum.“

Í hlíðunum fyrir ofan tjaldsvæðið er útivistarskóglendi Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga og þar má m.a. finna mikið af berjum og sveppum. Enn sem komið er eru engar merktar gönguleiðir um svæðið en fjölda vegslóða er þar að finna sem vel má spígspora um.

Á Laugum er sundlaug, verslun og veitingastaður. Stutt er að fá sér bíltúr til að skoða margar fallegar náttúruperlur og athyglisverða staði og söfn.

Verið hjartanlega velkomin!
Cornelia & Aðalsteinn Þorsteinsson